Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna
Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna er hópur sjálfstæðra sérfræðinga sem hefur eftirlit með framkvæmd og innleiðingu Barnasáttmálans og valfrjálsum bókunum við hann. Nefndin hefur einnig það hlutverk að túlka ákvæði sáttmálans og útfæra þannig þær skyldur sem hann leggur á aðildarríki. Gerir hún það meðal annars með því að gefa út almennar athugasemdir (general comments) um ákveðna málaflokka.
Hér má nálgast allar almennar athugasemdir nefndarinnar á einum stað.
Skýrslur og athugasemdir
Öllum aðildarríkjum ber skylda til að leggja reglulega fram skýrslur um framkvæmd og innleiðingu Barnasáttmálans í sínu landi. Aðildarríki gefa skýrslu til nefndarinnar tveimur árum eftir fullgildingu og þar á eftir á fimm ára fresti. Félagasamtökum og hlutaðkomandi aðilum í viðkomandi ríki er jafnframt gefinn kostur á að skila skýrslum sem lýsa þeirra sýn á framkvæmd sáttmálans, svokölluðum skuggaskýrslum. Nefndin fer yfir skýrslurnar og beinir í kjölfarið fyrirspurnum til aðildarríkja um þau atriði sem hún vill fá meiri upplýsingar um. Fulltrúar aðildarríkja mæta síðan í fyrirtökur hjá nefndinni þar sem helstu álitaefnin eru rædd. Loks gefur nefndin út lokaskýrslu með athugasemdum sínum við framkvæmd og innleiðingu sáttmálans í viðkomandi ríki. Í athugasemdunum eru tilmæli frá nefndinn um hvað aðildarríki þurfi að gera til að fullnægja skyldum sínum samkvæmt sáttmálanum. Hér má nálgast frekari upplýsingar um lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar við innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi.
Til að nálgast frekari upplýsingar um störf Barnaréttarnefndarinnar smellið hér