Valfrjálsar bókanir við Barnasáttmálann
Algengt er að mannréttindasáttmálum sé fylgt eftir með valfrjálsum bókunum sem annað hvort eru hugsaðar sem viðbót við sáttmálann eða til að útfæra nánar einstök ákvæði hans. Valfrjálsar bókanir eru sáttmálar í sjálfu sér og eru opnar fyrir undirskrift, samþykki og fullgildingu frá löndum sem eru aðilar að umræddum sáttmála. Ríkin eru þó ekki skuldbundin til að fullgilda bókanirnar, en þau ríki sem fullgilda þær eru lagalega skuldbundin til að fara eftir þeim.
Fyrsta og önnur bókunin
Þann 25. maí árið 2000, samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvær valfrjálsar bókanir við Barnasáttmálann. Önnur fjallar um sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi en hin um þátttöku barna í vopnuðum átökum. Árið 2002 voru þessar tvær valfrjálsu bókanir fullgiltar á Íslandi og við lögfestingu Barnasáttmálans árið 2013 voru þær einnig færðar í lög.
Þriðja bókunin
Þriðja valfrjálsa bókunin við Barnasáttmálann tók gildi árið 2014 og fjallar um sjálfstæða kæruheimild fyrir börn og fulltrúa þeirra til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Börn í aðildarríkjum sem fullgilt hafa þessa bókun geta leitað til nefndarinnar ef þau telja að brotið hafi verið gegn réttindum þeirra í heimalandi sínu. Ísland hefur hvorki skrifað undir né fullgilt þessa bókun.
Hér má nálgast valfrjálsu bókanirnar við Barnasáttmálann:
Valfrjáls bókun um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám
Valfrjáls bókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum
Valfrjáls bókun um sjálfstæða kæruheimild fyrir börn og fulltrúa þeirra