Grunnþáttur 1: Þekking á réttindum barna
Barnasáttmálinn leggur ríka skyldu á opinbera aðila um að fræða fullorðna og börn um þau réttindi sem í sáttmálanum eru, með virkum og markvissum hætti (42. grein). Þau sveitarfélög sem vinna að því að innleiða Barnasáttmálann þurfa því að vinna markvisst að því að efla þekkingu á réttindum barna innan sveitarfélagsins og gæta þess að réttindin séu virt.
Til að börn geti notið réttinda sinna er nauðsynlegt að bæði börn og fullorðnir þekki réttindin, skilji inntak þeirra og geti sett þau í samhengi við daglegt líf og umhverfi barna (4. grein). Ítarleg fræðsla og upplýsingar um réttindin eykur líkur á að þau séu virt. Sömuleiðis eru þau börn sem þekkja réttindi sín mun líklegri til að bera virðingu fyrir réttindum annarra. Með því að auka skilning á réttindum er hægt að hafa áhrif á vinnuferla, viðhorf og þjónustu sem sveitarfélagið veitir.
Fræðsla um réttindi barna þarf að vera kerfisbundin og samfelld og má því ekki byggjast á afmörkuðu átaki. Börn læra ekki að virða réttindi annarra eða standa vörð um eigin réttindi með því einu að lesa eða heyra um Barnasáttmálann – það þarf þjálfun og reynslu til (3. og 12. grein). Það þarf einnig að tryggja að borin sé virðing fyrir réttindum í umhverfi barna. Vitundarvakning um réttindi barna er ferli sem er einungis trúverðugt ef fullorðnir og börn vinna saman, þannig er fræðslan lærdómsferli fyrir bæði fullorðna og börn.
Gátlisti 1 – Þekking á réttindum barna
Gott er að hafa hugfast að gátlista þessum er ætlað að leiða stýrihóp innleiðingarinnar áfram í störfum sínum. Ekki þarf að uppfylla öll upptalin atriði, en mikilvægt er að velta þeim fyrir sér. Atriðunum er ýmist ætlað að dýpka skilning á umhverfi og þjónustu sveitarfélagsins eða skoða innviði þess. Gátlistinn er ekki tæmandi.
Almennt
- Er vísað í Barnasáttmálann í stefnumótandi skjölum sveitarfélagsins t.d fjárhagsáætlun, aðalskipulagi, mannréttinda-, jafnréttis-, velferðar- og/eða skólastefnu o.s.frv.?
- Er markvisst tekið mið af réttindum barna við ákvarðanir innan sveitarfélagsins og í verklagi starfsfólks?
Réttindafræðsla
- Er réttindafræðsla fyrir börn og fullorðna regluleg, markviss og samfelld?
- Hafa kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins fengið fræðslu um réttindi barna og hvernig réttindin hafa snertingu við ólík starfssvið?
- Er réttindafræðsla í boði í leik- og grunnskólum?
- Hvaða aldurshópum er boðin réttindafræðsla?
- Er réttindafræðsla hluti af skólanámskrám leik- og grunnskóla?
- Hefur skólaráðum og stjórnum nemendafélaga grunnskóla verið boðin réttindafræðsla?
- Hefur ungmennaráð sveitarfélagsins fengið réttindafræðslu og er sú fræðsla markviss? Er nýjum meðlimum í ráðinu boðin slík fræðsla við upphaf starfsársins?
- Hefur sveitarfélagið unnið að því að auka þekkingu íbúa á réttindum barna?
- Hefur starfsfólk, forstöðumenn og kjörnir fulltrúar fengið þjálfun og fræðslu í að vinna eftir Barnasáttmálanum?
- Eru nægar upplýsingar til staðar innan sveitarfélagsins um réttindi barna sem tilheyra viðkvæmum hópum t.d. börn með sérþarfir, börn sem sækja um alþjóðlega vernd eða börn sem þurfa á félagsþjónustu sveitarfélagsins að halda?
- Hefur starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum fengið þjálfun í að vinna með réttindi barna og setja þau í samhengi við störf sín (leikskólakennarar, grunnskólakennarar, starfsfólk félagsmiðstöðva, frístundaheimila, ungmennahúsa, starfsfólk félagsþjónustu og barnaverndar)?
- Hafa kjörnir fulltrúar og embættismenn fengið þjálfun í að vinna með réttindi barna og setja þau í samhengi við störf sín?
- Eru réttindafræðsla hluti af starfsþjálfun nýs starfsfólks?
- Er tryggt að starfsfólk fái reglulega endurmenntun um réttindi barna?
Inntak og gæði réttindafræðslu
- Er þekking barna og fullorðinna á Barnasáttmálanum mæld eða metin með reglulegum hætti?
- Kannar sveitarfélagið með markvissum hætti upplifun barna og ungmenna af því hvernig réttindi þeirra eru uppfyllt innan sveitarfélagsins?
- Tekur réttindafræðsla mið af daglegu umhverfi og reynsluheimi barna? Nýtist hún sem forvörn í ólíkum aðstæðum sem kunna að koma upp í lífi barna/ungmenna?
- Taka börn og ungmenni þátt í réttindafræðslunni sem skipuleggjendur og/eða fræðarar?
- Koma utanaðkomandi stofnanir eða frjáls félagasamtök að réttindafræðslunni með einhverjum hætti?
- Miðlar sveitarfélagið upplýsingum til starfsfólks, barna og annarra íbúa um hvernig bregðast skuli við í tilvikum þar sem brotið er á réttindum barna?
- Eru þessar upplýsingar aðgengilegar og auðlæsar bæði fyrir börn og fullorðna?