Grunnþáttur 2: Það sem barni er fyrir bestu
Ein af fjórum grundvallarforsendum Barnasáttmálans er að það sem barni er fyrir bestu, skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir er varða það (3. grein). Af þessari forsendu leiðir m.a. að hagsmunir barna eigi að vera hafðir að leiðarljósi í allri starfsemi barnvæns sveitarfélags. Ef hagsmunir barna og fullorðinna vegast á, vega hagsmunir barna þyngra. Áður en mótaðar eru stefnur, fjárhagsáætlanir og reglur eða ákvarðanir teknar á vettvangi sveitarfélagsins ætti að greina og meta hvort og hvaða áhrif þær geti haft á hagsmuni og réttindi barna.
Afleiðingagreining
Við allar stærri ákvarðanir innan sveitarfélags er mælt með því að hagsmunir og réttindi barna séu metin með formlegum hætti, með gerð svokallaðrar afleiðingagreiningar (Child impact assessment). Á þetta bæði við um ráðstafanir er varða börn með beinum hætti og ráðstafanir sem eru líklegar til að hafa óbein áhrif á hagsmuni barna. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út leiðbeiningar um gerð afleiðingagreininga, hér eru hagnýtar upplýsingar um þær.
Þegar mat er lagt á hvað teljist barni/börnum fyrir bestu skiptir máli að huga að réttindum barnsins í víðu samhengi, m.a. út frá grundvallarforsendum Barnasáttmálans. Þannig er til dæmis mikilvægt að huga að jafnræði og tryggja að börnum sé ekki mismunað með ómálefnalegum hætti (2. grein). Þá skiptir miklu máli að börn fái tækifæri til að tjá sig og hafa áhrif í málum er varða þau með einum eða öðrum hætti (12. grein). Almennt er ekki hægt að meta hvað sé börnum fyrir bestu nema taka tillit til sjónarmiða þeirra. Einnig getur verið gott að leita eftir sjónarmiðum þeirra sem starfa með börnum og umgangast þau í daglegu lífi. Sömuleiðis þarf að horfa til rannsókna og þekkingar á þörfum og stöðu barna sem til er á hverjum tíma. Mat á því hvað er barni eða börnum fyrir bestu hverju sinni verður ávallt að ráðast af heildarmati á ofangreindum forsendum. Að tekið sé tillit til réttinda barna, sjónarmiða þeirra, þeirrar þekkingar sem til er á hverjum tíma og síðast en ekki síst, aðstæðum hverju sinni.
Barnamiðuð fjárhagsáætlun
Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna leggur ríka áherslu á að sveitarfélög sem vinna að því að innleiða Barnasáttmálann, greini fjárhagsáætlanir sína út frá sjónarhorni barna, með sambærilegum hætti og við gerð kynjaðrar fjárhagsáætlunar (4. grein). Það er fátt sem lýsir með jafn skýrum hætti forgangsröðun sveitarfélags og fjárhagsáætlun þess. Fjárhagsáætlunin er í raun stefnuyfirlýsing um þau verkefni og málefni sem sveitarfélagið kýs að hlúa að og vernda. Sveitarfélag sem vinnur að því að innleiða Barnasáttmálann þarf því að greina og skoða hvernig það deilir fjármunum á milli málaflokka, hvernig fjármagnið nýtist börnum og hvort eða hvernig niðurskurður til ákveðinna málaflokka hafi áhrif á börn.
Fjárhagsáætlun er eitt öflugasta verkfærið sem sveitarfélag hefur til að uppfylla þær kröfur sem Barnasáttmálinn gerir til stjórnvalda. Í 4. grein sáttmálans kemur m.a. fram að stjórnvöld eigi að forgangsraða málefnum barna og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum komi til framkvæmda, að því leyti sem sveitarfélögin hafa bolmagn til.
Gátlisti 2 - Það sem barninu er fyrir bestu
Gott er að hafa hugfast að gátlista þessum er ætlað að leiða stýrihóp innleiðingarinnar áfram í störfum sínum. Ekki þarf að uppfylla öll upptalin atriði, en mikilvægt er að velta þeim fyrir sér. Atriðunum er ýmist ætlað að dýpka skilning á umhverfi og þjónustu sveitarfélagsins eða skoða innviði þess. Gátlistinn er ekki tæmandi.
Hagsmunir barna
- Hvernig eru hagsmunir barna metnir þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi sveitarfélagsins er varða börn með einum eða öðrum hætti?
- Er Barnasáttmálinn lagður til grundvallar við alla ákvarðanatöku, á öllum sviðum sveitarfélagsins?
- Gerir sveitarfélagið afleiðingagreiningu (child impact assessment) við allar stærri ákvarðanir er hafa bein eða óbein áhrif á hagsmuni barna.
- Er litið til athugasemda og tillagna Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, til íslenskra stjórnvalda um innleiðingu Barnasáttmálans, við stefnumótun eða þegar ákvarðanir eru teknar sem hafa áhrif á börn?
- Er tekið mið af upplýsingum og rannsóknum um börn og hagsmuni þeirra við ákvarðanatöku á vegum sveitarfélagsins?
- Er tekið sérstakt tillit til sjónarmiða og reynslu barna sem málið varðar áður en metið er hvað er talið þeim fyrir bestu?
- Er tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem vinna með börnum eða í þágu þeirra, svo sem félagasamtaka?
- Er sérstakur starfsmaður innan sveitarfélagsins sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með innleiðingu Barnasáttmálans og hagsmunum og réttindum barna ?
- Hefur viðkomandi góða þekkingu á réttindum barna?
- Hefur viðkomandi nægilegt umboð til að sinna sínu hlutverki?
Fjárhagsáætlun
- Eru útgjöld og fjárhagsáætlun sveitarfélagsins metin út frá barnvænum forsendum (child friendly budgeting) í samræmi við kynjaða fjárhagsáætlanagerð? Hér má nálgast upplýsingar um barnamiðaða greiningu fjárhagsáætlana.
- Eru útgjöld til ólíkra málaflokka barna borin saman milli ára?
- Eru áhrif niðurskurðar í málaflokkum tengdum börnum skoðuð áður en tekin er endanleg ákvörðun.
- Er haft samráð við börn og ungmenni við fjárhagsáætlanagerð?
- Er haft samráð við börn og ungmenni við ákvarðanatöku í niðurskurði?
Fara yfir á grunnþátt 3>
< Til baka á grunnþátt 1