Hvað eru barnvæn sveitarfélög?
Barnvæn sveitarfélög er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá 1996. Íslenska líkanið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi.
Hvað felur innleiðing Barnasáttmálans í sér?
Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á að uppfylla Barnasáttmálann verður sáttmálinn aldrei að fullu innleiddur inn í íslenskt samfélag, nema í samstarfi við íslensk sveitarfélög. Það eru sveitarfélögin sem annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf barna.
Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í sínu starfi og að forsendur sáttmálans gangi sem rauður þráður gegnum starfsemi þess.
Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og stjórnmálamenn sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu" og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Sáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.
Barnvænt sveitarfélag skuldbindur sig til þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins - sem byggir á eftirfarandi grunnþáttum:
- Þekkingu á réttindum barna.
- Því sem barninu er fyrir bestu.
- Jafnræði - að horft sé til réttinda allra barna.
- Þátttöku barna.
- Barnvænni nálgun.
Innleiðingarferlið
Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref, sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum, getur sveitarfélag sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaáætlun verkefnisins hafi verið fylgt eftir. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að tveimur árum liðnum.
Upphaf innleiðingar
Innleiðingarferli barnvænna sveitarfélaga hefst þegar sveitarstjórn samþykkir formlega að innleiða líkanið og stofnaður er stýrihópur verkefnisins (1. skref). Stýrihópurinn ber ábyrgð á innleiðingu skrefanna 8 og samskiptum við UNICEF.
Undirbúningur og markmið valin
Út frá upplýsingunum sem koma fram í kortlagningu innan sveitarfélagsins og samtali við einstaklinga þvert á svið og þjónustu, velur stýrihópurinn helstu markmið aðgerðaáætlunar verkefnisins (2. - 4. skref).
Skipulag og framkvæmd
Stýrihópurinn fylgir einnig eftir markmiðunum sem sett eru fram í aðgerðaáætlun sveitarfélagsins. Fyrsta ár innleiðingarferlisins miðar að því að skipuleggja framkvæmd verkefnisins, það seinna um að uppfylla markmið þess (5. skref).
Viðurkenning
Innleiðingarferlinu lýkur þegar sveitarfélagið gefur UNICEF skýrslu um framvindnu verkefnisins (6. skref), ef UNICEF metur að innleiðing verkefnisins hafi verið til framdáttar fyrir réttindi barna í sveitarfélaginu og að aðgerðaáætlun hafi verið fylgt fær sveitarfélagið viðurkenningu barnvænna sveitarfélaga (7. skref).
Endurmat og ný markmið
Ef sveitarfélag heldur innleiðingarvinnunni áfram, hefst nýtt tveggja ára ferli með nýjum markmiðum og nýrri aðgeraðáætlun. Að loknum tveimur árum til viðbótar getur sveitarfélagið sótt um að fá að halda viðurkenningunni til tveggja ára til viðbótar (8. skref).