2.skref - Kortlagning
Kortlagningin er eitt mikilvægasta skrefið þegar kemur að því að innleiða Barnasáttmálann innan sveitarfélags. Hún felur í sér umtalsverða gagnasöfnun um líðan, lífsskilyrði og réttindi barna svo hægt sé að búa til mælikvarða á velferð og réttindi barna í sveitarfélaginu. Sá mælikvarði er í kjölfarið nýttur sem grunnur fyrir aðgerðaáætlun verkefnisins og viðmið fyrir frekari stefnumótun sveitarfélagsins. Kortlagningin er stöðugreining á lífsskilyrðum barna í sveitarfélaginu. Ein af grundvallarforsendum Barnasáttmálans er jafnræði – bann við mismunun. Til að sveitarfélag geti innleitt þessa forsendu og unnið markvisst að því að auka jafnræði meðal barna er nauðsynlegt að eiga gagnagrunn með tölfræðilegum upplýsingum. Með kortlagningunni er ekki síst horft til þess að greina hvaða hópar barna eigi mest á hættu að falla á milli fjalanna innan sveitarfélagsins. Kortlagningin felst meðal annars í spurningalistum sem unnir eru af UNICEF í samstarfi við fræðimenn. Spurningalistarnir eru sniðnir að ólíkum aldurshópum barna, foreldrum og starfsmönnum sveitarfélagsins. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvort þau bæti spurningum við listana, slíkt getur verið áhugavert og veitt ítarlegri upplýsingar um stöðu barna í sveitarfélaginu.
Framkvæmd kortlagningar
Stýrihópurinn ber ábyrgð á kortlagningunni. Mikilvægt er að hún byggi á fjölbreyttum upplýsingum, meðal annars:- Svörum við gátlistum sem fylgja 5 grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga.
- Greiningu á svörum við spurningalistum barnvænna sveitarfélaga (lagðir fyrir börn, foreldra og valið starfsfólk sveitarfélagsins).
- Rannsóknum og tölfræðilegum gögnum um börn, sem þegar liggja fyrir innan sveitarfélagsins.
- Upplýsingum frá sérfræðihópum barna sem settir eru saman með hliðsjón af niðurstöðu gát- og spurningalistanna. Niðurstöður þeirra gefa vísbendingar um málefni sem mikilvægt er að skoða betur og viðkvæma hópa barna sem þarf að veita sérstaka athygli. Mælt er með að hóparnir séu samsettir af börnum og ungmennum sem hafi persónulega reynslu af viðfangsefnunum. Samhliða samtali við sérfræðihópa barna er haft samráð við fullorðna og starfsfólks sveitarfélagsins sem einnig hefur þekkingu á viðfangsefni hvers hóps. Að auki er haldið samráðsþing með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu.
Gátlistar
Stýrihópurinn svarar ítarlegum gátlistum sem byggja á 5 grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga. Grunnþættirnir eru eftirfarandi:- Þekking á réttindum barna.
- Það sem barninu er fyrir best.
- Jafnræði - bann við mismunun.
- Þátttaka barna.
- Barnvæn nálgun.
Spurningalistar
Stýrihópurinn hefur umsjón með að leggja spurningalista með 24 spurningum fyrir börn og starfsfólk sveitarfélagsins. Spurningalistarnir eru ítarlegir og rýna í 7 málaflokka sem hafa með réttindi barna í sveitarfélaginu að gera. Mælt er með því að spurningalistarnir séu lagðir fyrir í grunn- og framhaldsskólum til að tryggja sem víðtækasta svörun.Samtal við sérfræðihópa barna
Niðurstöður gát- og spurningalista, ásamt fyrirliggjandi tölfræðigögnum sem sveitarfélagið hefur aðgang að, eru rýnd með það fyrir augum að bera kennsl á hópa barna sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða málefni sem þarf að skoða betur með hliðsjón af réttindum barna. Út frá niðurstöðunum er tekin ákvörðun um hvaða sérfræðihópa sveitarfélagið setur saman. Sérfræðihóparnir eru skipaðir börnum og ungmennum sem búa yfir verðmætri reynslu á málefnum sem þarf að rýna frekar í. Huga þarf vel að stofnun slíkra sérfræðihópa og undirbúa fundi þeirra með hliðsjón af viðfangsefninu hverju sinni. Ef umræðuefni/málaflokkarnir eru viðkvæmir er mikilvægt að sálfræðingur sé til staðar og börnin geti haft aðgang að honum eftir þörfum. Gefa þarf börnunum ítarlegar upplýsingar um efni og markmið fundanna áður en þau samþykkja að taka þátt. Eins getur verið nauðsynlegt að afla leyfis foreldra fyrir þátttöku í sérfræðihópunum, en það fer þó eftir efni og eðli viðfangsefnisins. Jafnframt þarf að tryggja að börnin fái upplýsingar í kjölfar fundanna um hvernig umræður og upplýsingar á fundunum með þeim hafi verið notaðar.Samráðsfundur með börnum og ungmennum
Sveitarfélagið stendur fyrir stórfundi með börnum í sveitarfélaginu þar sem þau fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar og viðhorf til sveitarfélagsins og þeirrar þjónustu sem það veitir. Á fundinum eru börnin spurð að því hvað þau vilji hafa áhrif á innan sveitarfélagsins, hvernig þeim henti best að koma skoðunum sínum á framfæri og hvernig sveitarfélagið ætti almennt að standa að samráði við ungt fólk. Markmið fundarins er einnig að teikna upp mynd af sveitarfélaginu með augum yngstu íbúanna og skapa samræðugrundvöll milli þeirra, stýrihóps verkefnisins og stjórnvalda.
Greinargerð
Þau sveitarfélög sem ætla að sækja um viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélög senda á þessu stigi óformlega greinargerð um niðurstöður kortlagningarinnar til UNICEF. Stýrhópurinn og umsjónarmaðurinn vinna greinargerðina og tilgreina þar helstu niðurstöður kortlagningarinnar. UNICEF gefur stýrihópnum endurgjöf á greinargerðina og í kjölfarið hefst vinna stýrihópsins við næsta skref, gerð aðgerðaáætlunar. Greinargerðin myndar hluta af mati UNICEF á því hvort sveitarfélagið hljóti viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag að innleiðingarferlinu loknu.
Samantekt – 2. skref
Hvað gerir sveitarfélagið? • Stýrihópurinn kortleggur sveitarfélagið með gátlistum sem byggja á grunnþáttum barnvænna sveitarfélaga, spurningalistum og samtali við börn og starfsfólk sveitarfélagsins. • Stýrihópurinn safnar saman í gagnagrunn fyrirliggjandi tölfræðigögnum um börn í sveitarfélaginu og lætur greina þau á heildstæðan hátt. • Kortlagningin byggir m.a. á röddum barna og ungmenna og eftir því sem við á foreldra og annarra forsjáraðila. • Ef sveitarfélagið ætlar að sækja um viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag sendir stýrihópurinn greinargerð um niðurstöðu kortlagningarinnar til UNICEF.
Hvaða stuðning getur UNICEF boðið á þessu stigi? • Ráðgjöf við kortlagninguna eftir þörfum.