8.skref - Endurmat og ný verkefni
Viðurkenning barnvænna sveitarfélaga gildir í þrjú ár. Ef sveitarfélag vill viðhalda viðurkenningunni þarf að halda innleiðingunni áfram, setja ný markmið og gera nýja aðgerðaáætlun. Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að draga lærdóm af fyrra innleiðingartímabilinu, skoða athugasemdir við lokaskýrsluna, mat starfsfólks UNICEF á innleiðingarferlinu o.s.frv.
Endurmat
Á þessu stigi er ástæða til að staldra við og leggja mat á innleiðingarferlið og hvaða lærdóm megi draga af vinnunni við að innleiða Barnasáttmálann. Til dæmis getur verið þörf á að huga að samsetningu stýrihópsins eða breyta nálgun hans að verkefninu. Að sama skapi er mikilvægt að líta á þátttöku barna og ungmenna í verkefninu og skoða hvað hægt sé að gera betur og hvernig auka má þátttöku þeirra.
Ný aðgerðaáætlun
Nýtt innleiðingartímabil hefst formlega með vinnu við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar, nýjum markmiðum og aðgerðum. Þegar sú aðgerðaáætlun hefur verið uppfyllt (miðað er við þrjú ár frá veitingu viðurkenningarinnar) getur sveitarfélagið sótt um nýtt mat og endurnýjun viðurkenningarinnar.
Endurnýjun viðurkenningar
Ef framkvæmd nýju aðgerðaáætlunarinnar er í samræmi við markmið áætlunarinnar endurnýjast viðurkenningin til þriggja ára í viðbót.