Barnvæn sveitarfélög

Sveitarfélög með réttindi barna að leiðarljósi

Um verkefnið

Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaráætlun verkefnisins hafi verið fylgt eftir og komist til framkvæmdar.

Viðurkenningin gildir í þrjú ár en til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þremur árum liðnum.

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur