Árangur Barnvænna sveitarfélaga

Þau sveitarfélög sem hafa hlotið viðurkenningu UNICEF sem Barnvæn sveitarfélög hafa unnið að ýmsum úrbótum með réttindi barna að leiðarljósi. Hér að neðan verður farið yfir þær aðgerðir sem framkvæmdar hafa verið sem hluti af verkefninu Barnvæn sveitarfélög.

Á myndinni eru frá vinstri: Birna Þórarinsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Alfa Dröfn Jóannsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Ari Orrason, Rakel Alda Steinsdóttir, Embla Kristín Blöndal Jóhannsdóttir og Ásthildur Sturludóttir.

Akureyrarbær

Akureyrarbær hlaut viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag í maí 2020. Sveitarfélagið hefur unnið að margvíslegum úrbótum frá þeim tíma sem þau hófu vegferð sína sem hluti af verkefninu. Hér má sjá sumar þeirra úrbóta sem unnið hefur verið að innan sveitarfélagsins.

 • Raddir barna: unnið var að því að auka almenna fræðslu fyrir ungmenni innan skólanna í samráði við ungmennin sjálf. Fræðsla um samfélagsmál eftir óskum barnanna.  
 • Börnum og ungmennum var gert kleift að koma á framfæri tilkynningum um mál er þau varða til sveitarfélagsins. Ábendingahnappur var settur upp á heimasíðu Akureyrarbæjar og þær ábendingar sem þangað berast fara allar í formlegt ferli innan stjórnsýslunnar.  
 • Verkferlar voru þróaðir fyrir stjórnsýslu og stofnanir sveitarfélagsins sem tryggja að börn og ungmenni séu höfð með í ráðum þegar þjónusta er endurskipulögð og þegar unnið er að stefnumótun málaflokka er varða þau. Við stefnumótunarvinnu eru ungmenni markvisst kölluð að borðinu og fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ungmennaráð fær öll mál sem varða börn og ungmenni inn á sitt borð til umsagnar.  
 • Verklag við snjómokstur var endurskoðað í samráði við börn og ungmenni. Sú ákvörðun var tekin að skólaleiðir yrðu í forgangi í verkáætlun um snjómokstur. Endurskoðun á leiðarkerfi strætisvagna Akureyrar fór einnig fram haustið 2019 í samráði við ungmenni.  
 • Heildstæð skoðun fór fram á geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna til að tryggja að gagnreyndar forvarnir séu til staðar. Stöðumat framkvæmt og sérstaklega kannað hvort ákveðnir hópar barna séu verr staddir en aðrir og útbúin áætlun sem miðar að því að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
 • Unnið var að því að skýra enn frekar hlutverk ungmennaráðs innan stjórnsýslunnar sem tryggir að það hafi beina tengingu við kjörna fulltrúa og starfsmenn bæjarins. Verkferlar settir upp sem tryggja að öll mál sem varða börn og ungmenni fari til ungmennaráðs til umsagnar en einnig er það tryggt með verkferlum að ungmennaráð geti komið eigin málum í formlegan farveg innan stjórnsýslunnar.  
 • Ungmennaráði var veitt fræðsla um stjórnsýslu sveitarfélagsins svo þau hafi forsendur til að vinna með stjórnkerfi bæjarins og viti hvernig þau geti komið eigin málefnum á framfæri. Ungmennaráð getur því lagt fram ósk um fræðslu.  
 • Ungmennaþing var haldið og var það formfest að slíkt verði gert árlega. Ungmennaráðið tekur virkan þátt í skipulagningu og vali á þema eða umræðuefni þingsins.  
 • Ungmennaráð kynnir starfsemi sína á hverju ári fyrir börnum og ungmennum bæjarins. Þá geta börn og ungmenni sem ekki sitja í ráðinu haft samband við ráðið með málefni er þeim þykir mikilvægt að koma á framfæri við bæjaryfirvöld. Þessi kynning fer fram á ungmennaþingi auk þess sem ráðið hefur farið inn í alla grunn- og framhaldsskóla í bænum.  
 • Ungmennaráð fundar með börnum og ungmennum sem sitja í skóla- og nemendaráðum.  
 • Tryggt hefur verið að nemendur eigi fulltrúa í öllum skólaráðum lögum samkvæmt og eins að nemendaráð séu starfandi við alla skóla bæjarins. Þeir fulltrúar sem sitja í þessum ráðum fá fræðslu um hlutverk sitt og upplýsingar um það hvert þau geta leitað eftir frekari upplýsingum eða stuðningi vegna þess.  
 • Reglur og verklag vegna skóla- og nemendaráða sett upp og endurskoðað árlega.
 • Útbúin hefur verið Handbók um skólaráð – Barnvænt Akureyri, en nemendur fá hana afhenta áður en þeir taka sæti í skólaráði. 
 • Útbúnir voru gátlistar fyrir stjórnsýslu Akureyrarbæjar sem tryggja að markvisst sé tekið mið af réttindum barna við allar ákvarðanir er varða börn og ungmenni með einum eða öðrum hætti.  
 • Mælaborð um velferð barna sem þróað var af Kópavogsbæ í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi tekið í notkun. Þar er haldið utan um tölfræðigögn um börn í sveitarfélaginu. Mælaborðið var svo vel kynnt fyrir starfsfólki bæjarins og kjörnum fulltrúum til þess að tryggja að gögnin verði markvisst notuð.  
 • Gögnum um nýtingu frístundastyrks er safnað og skimað eftir börnum sem ekki hafa notað styrkinn síðastliðin þrjú ár.  
 • Fræðsla veitt öllum starfsmönnum og kjörnum fulltrúum auk barna og ungmenna sem búa á Akureyri um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Markmiðið með því er að börn og fullorðnir þekki réttindi barna og geti sett hann í samhengi við daglegt líf og með því notað hann sem gæðastjórnunarverkfæri innan sveitarfélagsins. 
 • Verklag og viðbragðsáætlun var sett upp til að begðast við því þegar grunur vaknar um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna. Þetta var sett upp í rafræna handbók. Rafrænt tilkynningaform var einnig hannað fyrir starfmenn stofnanna, almenning og börn til þess að auðvelda tilkynningar til barnaverndar.  
 • 4.-10. bekkur í öllum skólum Akureyrar fengu fræðslupakka um réttindi barna og tilkynningarskylduna.   
 • Ungmennaráð fékk fræðslu um réttindi barna og Barnvæn sveitarfélög.
 • Allt starfsfólk vinnuskóla Akureyrar fékk fræðslu um réttindi banra og Barnvæn sveitarfélög. Þessi fræðsla fer fram árlega.  
 • Reglulega verði boðið upp á fræðslu um réttindi barna fyrir kennara, starfsfólk grunnskóla og aðra sem starfa með og fyrir börn.  
 • Öll svið Akureyrarbæjar hafa tilnefnt réttindafulltrúa og fulltrúarnir hafa fengið fræðslu um réttindi barna og Barnvænt sveitarfélag. Réttindafulltrúarnir hafa það hlutverk að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans innan sinnar starfsstöðvar.  
 • Verkefnastjóri ráðinn sem ber ábyrgð á innleiðingu Barnasáttmálans og Barnvæns sveitarfélags. Verkefnastjórinn talar máli barna innan kerfisins og kallar rétta aðila að borðinu þegar svo ber undir ásamt því að sinna fleiri verkefnum sem snerta velferð barna innan sveitarfélagsins.
 • Skrifstofa verkefnastjóra Barnvæns sveitarfélags var opnuð og hún gerð aðgengileg börnum í barnvænu umhverfi. Opnunartími hennar er aðlagaður að skólatíma. Verkefnastjórinn hefur heimsótt alla grunnsóla og á gott og stöðugt samtal við þá. Þessar heimsóknir verða endurteknar reglulega.
 • Verkefnastjóri óskar árlega eftir tillögum að verkefnum sem unnið skuli að á hverju ári frá réttindafulltrúum frá öllum starfsstöðvum. 
 • Verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags hefur umsjón með ungmennaráði.  
 • Verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags stendur fyrir fræðslu um Barnasáttmálann fyrir kjörna fulltrúa og bæjarstjóra a.m.k. við upphaf hvers kjörtímabils. 
 • Hugmyndafræði Réttindaskóla og -frístundar UNICEF var kynnt skólastjórnendum, pólitískum fulltrúum og starfsmönnum allra stofnana á Akureyri.  

Hér má nálgast aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar sem heild ásamt lokaskýrslu sveitarfélagsins vegna Barnvæns sveitarfélags.  

Á myndinni eru frá vinstri Ásmundur Einar Daðason, Anna Elísabet Ólafsdóttir, Eiríkur Örn Beck, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Birna Þórarinsdóttir

Kópavogsbær

Kópavogsbær hlaut viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag í maí 2021. Sveitarfélagið hefur unnið að margvíslegum úrbótum frá þeim tíma sem þau hófu vegferð sína sem hluti af verkefninu. Hér að neðan má sjá samantekt á sumum þeim úrbótum sem gerðar hafa verið.

 • Þróað var mælaborð um lífsgæði barna í Kópavogi. Markmið þess var að halda utan um mælingar á velferð barna í sveitarfélaginu svo hægt sé að fylgjast með stöðu og þróun og grípa til viðeigandi aðgerða sé þeirra þörf. Mælaborðið hefur nú verið stækkað og býðst öllum sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög að nýta sér hugbúnaðinn.
 • Markvisst er leitað eftir viðhorfum barna og ungmenna. Kópavogsbær tók þátt í því að vinna handbók fyrir íbúasamráð á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem Kópavogsbær lagði áherslu á samráð við börn og ungmenni á grunnskólaaldri um það hvernig þau geti komið meira að málefnum sveitarfélagsins. Kópavogsbær ásamt Akureyrarbæ fékk styrk frá félagsmálaráðuneytinu til þess að eiga í samráði við börn af erlendum uppruna með sama markmiði (þ.e. að komast að því hvernig er best að hátta samráði við þau). Einnig var rætt við börn með fatlanir og öll samtölin leiddu svo af sér verkferil um samráð við börn og ungmenni þar sem fyrsta skrefið er þjálfun, það næsta umræður innan skóla, svo tekur við barnaþing og þar á eftir umsagnarferli sem endar svo á fundi með bæjarstjórn og ákvörðun bæjarstjórnar. 
 • Tilkynningahnappur var settur upp á heimasíðu sveitarfélagsins með það að leiðarljósi að auðvelda börnum að koma málefnum á framfæri til barnaverndar án milligöngu fullorðinna. Hnappurinn var settur upp á spjaldtölvum sem öll börn í 5.-10.bekk hafa aðgang að. Leiðbeiningar um notkun hnappsins fylgja á íslensku, ensku og pólsku. 
 • Ábendingahnappur var settur upp með sama móti en markmið hans er að auðvelda börnum að koma ábendingum er varða málefni bæjarins á framfæri til bæjaryfirvalda án milligöngu foreldra.  
 • Þar sem fram kom á ungmennaþingi að bæta mætti fræðslu um andlega heilsu var ákveðið að fara af stað í úttekt á þeirri fræðslu sem þegar var til staðar innan leik- og grunnskóla bæjarins. Sett var á laggirnar lýðheilsuhús með áherslu á geðrækt. Skoðana var leitað hjá börnum um það hvernig fræðsla kæmi að bestum notum en geðræktarhús mun bjóða upp á námskeið fyrir börn og ungmenni.  
 • Unnið var markvisst að því að auka þekkingu á Barnasáttmálanum hjá íbúum á öllum aldri, sérstaklega var lögð áhersla á börnin sjálf og þá sem vinna með börnum. Byrjað var á því að kanna þekkingu á réttindum barna hjá íbúum bæjarins með því að bæta spurningum við árlega þjónustukönnun sveitarfélaga. Íbúar fengu tækifæri til að koma með athugasemdir við aðgerðir sem settar voru fram í aðgerðaáætlun bæjarins fyrir Barnvænt sveitarfélag. Myndbönd voru gerð til þess að kynna á barnvænan hátt tilkynningahnappa sem settir voru upp. Ásamt því var myndband gert þar sem það er dregið fram hvernig innleiðing Barnasáttmálans hefur áhrif á starfsemi bæjarins.  
 • Fræðsla um mikilvægi tilkynninga til Barnaverndar þegar grunur vaknar um vanrækslu eða ofbeldi gegn barni var efld. Barnavernd heldur reglulegar kynningar á starfsemi sinni og tilkynningarskyldu til þeirra sem vinna með börnum. Annar bekkur fær árlega sýningu á forvarnarleikritinu „krakkarnir í hverfinu“ og fulltrúar barnaverndar taka þátt í því. Verkefnastjóri snemmtæks stuðnings og samfelldrar þjónustu var ráðinn hjá velferðarsviði sem annast fræðslu um stuðning velferðarsviðs og barnaverndar. Allir nemendur í 5.-10.bekk fá reglulega kynningu á tilkynningarhnappi til barnaverndar og mikilvægi tilkynninga, en þessar upplýsingar eru einnig aðgengilegar á heimasíðu bæjarins.  
 • Börnum gert kleift að leita aðstoðar án þess að fara fyrst til forráðamanna eða í gegnum formlegar boðleiðir. Sálfræðingar eru starfandi í öllum grunnskólum og geta börn nýtt sér þjónustu þeirra milliliðalaust.
 • Námskeið var haldið fyrir kennara, starfsfólk frístunda og félagsmiðstöðva þar sem fjallað var um virka hlustun, lýðræði, lýðræðislega ákvörðunartöku og samfélagslega ábyrgð. Íþróttafélögum stóð einnig til boða að fá slíkt námskeið.  
 • Þeir möguleikar sem börn hafa til að hafa áhrif á málefni sem varða líf þeirra voru sérstaklega kynntir fyrir börnum og ungmennum.  
 • Rannsókn á álagi á börnum og ungmennum í Kópavogi var undirbúin en framkvæmd hennar frestaðist þó vegna COVID-19. 
 • Stefna var sett í lýðheilsumálum í Kópavogi sem allar stofnanir og deildir vinna eftir.
 • Áhersla var lögð á að virkja áhuga barna á umhverfismálum í samstarfi við Náttúrufræðistofu Kópavogs. Verkefni  voru þróuð og vefsíða sett upp.  
 • Jafnréttis- og mannréttindaáætlun Kópavogsbæjar var yfirfarin með tilliti til réttinda barna. Ný útgáfa hennar var gefin út 2019 og gildir til 2023. 
 • Verkferlar og gæðakerfi voru yfirfarin með hliðsjón af réttindum barna. Þá var sérstök áhersla lögð á að börn, þar á meðal ungmennaráð, væru inni í kerfinu sem formlegir umsagnaraðilar. 
 • Kópavogsbær vann einnig að því að greina fjármál sín út frá réttindum barna með það að leiðarljósi að geta fylgst með fjárveitingum til málefna er varða börn.
 • Formlegur tengiliður barna hefur tekið til starfa innan sveitarfélagsins.    

Hér má nálgast aðgerðaáætlun Kópavogsbæjar í heild sinni ásamt lokaskýrslu sveitarfélagsins vegna Barnvæns sveitarfélags.  

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur