Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

eftirlitsaðili Barnasáttmálans

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna er hópur 18 sjálfstæðra sérfræðinga sem hefur eftirlit með framkvæmd og innleiðingu Barnasáttmálans og valfrjálsum bókunum við hann. Nefndin hefur einnig það hlutverk að túlka ákvæði sáttmálans og útfæra þannig þær skyldur sem hann leggur á aðildarríki. Gerir hún það meðal annars með því að gefa út almennar athugasemdir (general comments) um ákveðna málaflokka.

Skýrslur og athugasemdir

Öllum aðildarríkjum ber skylda til að leggja reglulega fram skýrslur um framkvæmd og innleiðingu Barnasáttmálans í sínu landi. Aðildarríki gefa skýrslu til nefndarinnar tveimur árum eftir fullgildingu og þar á eftir á fimm ára fresti. Félagasamtökum og hlutaðkomandi aðilum í viðkomandi ríki er jafnframt gefinn kostur á að skila skýrslum sem lýsa þeirra sýn á framkvæmd sáttmálans, svokölluðum skuggaskýrslum. Nefndin fer yfir skýrslurnar og beinir í kjölfarið fyrirspurnum til aðildarríkja um þau atriði sem hún vill fá meiri upplýsingar um. Fulltrúar aðildarríkja mæta síðan í fyrirtökur hjá nefndinni þar sem helstu álitaefnin eru rædd. Loks gefur nefndin út lokaskýrslu með athugasemdum sínum við framkvæmd og innleiðingu sáttmálans í viðkomandi ríki. Í athugasemdunum eru tilmæli frá nefndinn um hvað aðildarríki þurfi að gera til að fullnægja skyldum sínum samkvæmt sáttmálanum.

Almennar athugasemdir Barnaréttarnefndarinnar

Hér er að finna allar almennar athugasemdir sem Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út til dagsins í dag.

Skýrslur til Barnaréttarnefndarinnar

Íslenska ríkið hefur skilað þremur skýrslum til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna (árin 1994, 2000 og 2008). Hér að neðan má nálgast bæði skýrslur stjórnvalda og félagasamtaka til Barnaréttarnefndarinnar.

Fyrsta fyrirtaka Íslands

Önnur fyrirtaka Íslands

Þriðja fyrirtaka Íslands

Fjórða fyrirtaka Íslands

Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar

Öll aðildarríki Barnasáttmálans (ríki sem hafa fullgilt hann) skila skýrslu til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um stöðu innleiðingar sáttmálans á fimm ára fresti. Í kjölfar þess að nefndinni berst skýrsla aðildarríkis eru fulltrúar stjórnvalda kallaðir í fyrirtöku hjá Barnaréttarnefndinni. Í fyrirtökunni er farið ítarlega yfir hvernig ríkið stendur sig í að uppfylla réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum. Í kjölfar fyrirtökunnar gefur nefndin út lokaathugasemdir sínar. Þar er að finna tilmæli Barnaréttarnefndarinnar til stjórnvalda umrædds ríkis um framkvæmd og innleiðingu Barnasáttmálans. Þar kemur meðal annars fram hver helstu áhyggjuefni nefndarinnar eru, tilmæli um hvað þurfi að bæta og tillögur að úrbótum.
 
Hér að neðan er stutt samantekt á athugasemdum Barnréttindanefndarinnar til íslenskra stjórnvalda í kjölfar fyrirtöku íslenska ríkisins hjá nefndinni árið 2011.

Innleiðing Barnasáttmálans

Ein helsta athugasemdin sem nefndin gerði við íslensk stjórnvöld var innleiðingu/framkvæmd sáttmálans. Nefndin benti meðal annars á að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert landsáætlun um innleiðingu/framkvæmd Barnasáttmálans. Hún benti á að slík áætlun ætti að tilgreina ábyrgð ólíkra stofnana og sveitarfélaga, á hlutverki þeirra við innleiðingu sáttmálans á Íslandi. Benti Barnaréttarnefndin meðal annars á að slík áætlun ætti að vera leiðbeinandi fyrir vinnu með réttindi barna á öllum stigum stjórnsýslunnar.

Nefndin benti jafnframt á að ríkið ætti að setja á stofn sérstaka stofnun sem sæi um eftirfylgni með innleiðingu Barnasáttmálans. Þannig gæti ríkið stutt við það ferli sem landsáætlun myndi tilgreina.

Þar að auki kemur fram í athugasemdum nefndarinnar mikilvægi þess að fræðsla um réttindi barna nái til allra barna á Íslandi, en einnig til allra þeirra sem bera með einum eða öðrum hætti ábyrgð á börnum eða málefnum þeim tengdum.

Eftirfylgni með fyrri athugasemdum nefndarinnar

Nefndin tiltók í athugasemdum sínum að hún harmaði að athugasemdum nefndarinnar frá síðustu fyrirtöku íslenskra stjórnvalda hafi ekki verið fylgt nægilega vel eftir. Kom fram að mörgum af athugasemdum nefndarinnar frá 2003 hafi ekki enn verið uppfylltar.

Gagnasöfnun

Nefndin mæltist til þess að stjórnvöld færu að safna tölfræðilegum gögnum um lífsskilyrði barna með kerfisbundnum hætti. Með því að safna slíkum gögnum fengju stjórnvöld ítarlegar upplýsingar um velferð barna í samfélaginu. Nefndin undirstrikaði jafnframt að slík gagnasöfnun væri forsenda þess að hægt væri að stuðla að jafnræði meðal barna á Íslandi.

Brottfall framhaldsskólanemenda af erlendum uppruna

Nefndin lét í ljós alvarlegar áhyggjur af háu brottfalli nemenda af erlendum uppruna úr framhaldsskólum landsins, lagði hún til að farið væri af stað með aðgerðir til að stemma stigu við því.

Áhrif niðurskurðar á börn

Nefndin tók fram að hún hefði skilning á því að á Íslandi væri efnahagsleg kreppa sem þrengt hefði að umsýslu stjórnvalda. Hins vegar tók nefndin fram að hún kynni að meta þær aðgerðir sem stjórnvöld hefðu lagt í, með það að markmiði að standa vörð um velferð og réttindi barna. Þar benti nefndin sérstaklega á ákvörðun stjórnvalda um að takmarka niðurskurð til málefna er varði hópa barna sem standi höllum fæti í samfélaginu. Nefndin mæltist þó til þess að íslensk stjórnvöld drægju til baka niðurskurð til mennta- og heilbrigðiskerfisins.

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur