Grunnþættir

Barnvæn sveitarfélög byggja á fimm grunnþáttum

Barnvæn sveitarfélög byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative sem snýr að því að innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Sveitarfélögin sem kjósa að taka þátt í verkefninu gera þannig sáttmálann að rauðum þræði í allri sinni starfsemi og stefnumótun. Verkefnið hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim frá árinu 1996 en það byrjaði hér á landi árið 2016. Frá því árið 2019 hefur verkefnið verið unnið í góðu samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Árið 2020 hlaut fyrsta íslenska sveitarfélagið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Í dag vinnur fjöldi sveitarfélaga hörðum höndum að því að öðlast viðurkenninguna.
Verkefnið byggir á fimm grunnþáttum, sem eru leiðarstef í gegnum öll skref innleiðingarferlisins. Þeir eru:

Þekking á réttindum barna

Það sem barninu er fyrir bestu

Jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna

þátttaka barna

Barnvæn nálgun

Þekking á réttindum barna

Barnasáttmálinn leggur ríka skyldu á opinbera aðila um að fræða fullorðna og börn um þau réttindi sem í sáttmálanum eru, með virkum og markvissum hætti (42. grein). Þau sveitarfélög sem vinna að því að innleiða Barnasáttmálann þurfa því að vinna markvisst að því að efla þekkingu á réttindum barna innan sveitarfélagsins og gæta þess að réttindin séu virt.

Ein af stoðum verkefnisins er að sveitarfélagið fræði starfsfólk, börn og fullorðna um réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum. Samkvæmt 42. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á því að þekkja réttindi sín og þau eiga líka rétt á því að allt fullorðið fólk þekki réttindi þeirra. Börn geta ekki skilið réttindi sín án þess að fræðast um þau og við getum ekki unnið út frá Barnasáttmálanum án þess að þekkja hann og skilja. Við þurfum fræðslu og æfingu í að sjá samhengið milli sáttmálans og þess starfs sem við vinnum. Þess vegna þarf sveitarfélagið að vinna markvisst að því að fræða allt sitt starfsfólk og huga að réttindafræðslu í skólum. Vinna þarf markvisst að því að dreifa þekkingunni sem víðast um samfélagið.

Fræðsla um réttindi barna þarf að vera kerfisbundin og samfelld og má því ekki byggjast á afmörkuðu átaki. Börn læra ekki að virða réttindi annarra eða standa vörð um eigin réttindi með því einu að lesa eða heyra um Barnasáttmálann – það þarf þjálfun og reynslu til. Það þarf einnig að tryggja að borin sé virðing fyrir réttindum í umhverfi barna. Vitundarvakning um réttindi barna er ferli sem er einungis trúverðugt ef fullorðnir og börn vinna saman, þannig er fræðslan lærdómsferli fyrir bæði fullorðna og börn.

Það sem er barninu fyrir bestu

Þriðja grein Barnasáttmálans fjallar um að það sem er barninu fyrir bestu sé ávallt tekið til skoðunar þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Þegar ákvarðanir eru teknar sem varða börn skal gera mat á hagsmunum barna. Þá eru afleiðingar ákvarðana á börn greindar. Slíkt mat getur annars vegar varðað hóp barna og hins vegar getur það varðað eitt barn. Til að komast að því hvað er best fyrir barnið er ýmislegt sem þarf að skoða; lög og reglugerðir, raunprófaða þekkingu og þær greinar Barnasáttmálans sem eiga við hverju sinni. Það er ekki hægt að vita hvað er barninu fyrir bestu án þess að tala við barnið eða börnin sem ákvörðunin hefur áhrif á hverju sinni og taka tillit til þess.

Jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna

Jafnræði – bann við mismunun er ein af fjórum grundvallarforsendum Barnasáttmálans (2. grein). Samkvæmt sáttmálanum eiga öll börn að njóta sömu réttinda án tillits til kynþáttar, kynferðis, trúar, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna. Þessi forsenda er grunnstef í hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga.

Þegar unnið er að því að efla jafnræði meðal barna er nauðsynlegt að skoða jafnræði út frá ólíkum forsendum. Sveitarfélag ætti að stuðla að jafnræði í allri sinni vinnu, jafnréttisáætlanir og mannréttindastefnur ættu að taka mið af því að börn og ungmenni eru víðtækur og fjölbreyttur hópur á breiðu aldursbili. Til að tryggja aukið jafnræði meðal barna er þörf fyrir markvissa vinnu sem miðar að því að; draga úr fordómum, breyta viðhorfum, úrvinnslu tölfræðilegra gagna um stöðu barna og mótun markvissrar stefnu með virku samráði við börn.

Þegar kemur að stefnumótun er mikilvægt að sveitarfélag safni upplýsingum um lífsskilyrði barna og haldi til haga í gagnagrunni. Með slíkum gagnagrunni getur sveitarfélagið greint viðkvæma hópa og geta þar af leiðandi beitt markvissum aðgerðum til að bæta stöðu þeirra. Einnig er mikilvægt að sveitarfélagið nálgist þessa hópa og eigi við þá samtal og samráð. Þekking umræddra hópa er mikilvæg og nýtist sveitarfélaginu við að vinna gegn mismunun.

Að greina mismunun og efla jafnræði krefst kerfisbundinnar fræðslu innan sveitarfélags og stofnana þess. Rýna þarf vinnulag í ólíkum málaflokkum, með það fyrir augum að meta hvort það takmarki eða útiloki ákveðna hópa barna og ungmenna frá þátttöku í verkefnum og þjónustu. Lykilatriði er að tryggja að öll börn eigi möguleika á að koma sínum skoðunum á framfæri, án tillits til stöðu þeirra. Oft getur verið nauðsynlegt að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja að t.d. börn af erlendum uppruna, börn með sérþarfir eða börn á forræði barnaverndar fái tækifæri til að hafa áhrif á málefni er varða þau. Oft getur verið erfitt að ná til þeirra hópa sem eru á jaðrinum félagslega eða búa við viðkvæmar aðstæður. Upplýsingarnar sem slíkir hópar búa yfir eru þó mikilvægar þar sem þeir nýta oft þjónustu sveitarfélagsins hvað mest.

Þátttaka barna

Börn eiga rétt á því að fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar um öll málefni sem hafa áhrif á þeirra líf og að tekið sé réttmætt tillit til þess sem þau hafa að segja með hliðsjón af aldri og þroska. Ákvörðun um að innleiða Barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna sé verðmæt fyrir sveitarfélag. Barnvæn sveitarfélög vinna að því að efla þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og leita eftir og nýta sér reynslu og viðhorf þeirra til að bæta þá þjónustu sem ætluð er þeim.

Sveitarfélagið þarf að tryggja að til staðar séu skýrar og aðgengilegar þátttökuleiðir fyrir börn, þannig að þeim séu tryggð tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélagið sitt og umhverfi. Samkvæmt Barnasáttmálanum ber stjórnvöldum þ.á.m. sveitarfélögum að hlusta eftir skoðunum barna og taka réttmætt tillit til þeirra. Sveitarfélögum er skylt að hvetja börn til lýðræðislegrar þátttöku og tryggja þeim vettvang til að tjá sig á eigin forsendum. Á það við um öll mál er varða börn með einum eða öðrum hætti, svo sem í skólastarfi, félagsþjónustu, frístundastarfi og við skipulag nánasta umhverfis. Réttur barna til þátttöku er einnig tryggður í ýmsum öðrum lögum, m.a. í barna- (nr. 76/2003), grunnskóla- (nr. 91/2008), framhaldsskóla- (nr. 92/2008), æskulýðs- (nr. 70/2007) og barnaverndarlögum (nr. 80/2002). Þó að sum lög tiltaki aldursmörk eða geri óbeint ekki ráð fyrir að ung börn hafi formlegar leiðir til áhrifa og þátttöku, þá eiga öll börn þennan rétt. Mikilvægt er að börn fái frá unga aldri þjálfun í því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, miðla málum og finna lausnir með öðrum.

Tækifæri barna og ungmenna til að hafa áhrif eru oft bundin við ólík ráð og hópa, svo sem ungmennaráð og nemendafélög. Engu að síður ber að nefna að Barnasáttmálinn tryggir öllum börnum jafnan rétt til þátttöku. Frá sjónarhorni réttinda allra barna þarf að veita ólíkum aldurshópum athygli. Leitast þarf við að hlusta á raddir ólíkra hópa, sérstaklega þeirra er standa höllum fæti eða eiga frekar á hættu að verða fyrir mismunun. Barnvæn sveitarfélög eiga að hafa skýra og markvissa verkferla fyrir samráð við börn og ungmenni vegna mála sem tekin eru fyrir innan stjórnsýslunnar. Mikilvægt er að skoða hvort þær leiðir/aðferðir til þátttöku sem eru í boði fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu séu aðgengilegar öllum börnum. Skoða þarf og greina hvort erfiðara sé fyrir ákveðna hópa að taka þátt. Börn með greiningar og/eða skerðingar, börn af erlendum uppruna og yngri börn eru oft ólíkleg til að taka þátt í skipulögðum samráðsvettvöngum líkt og ungmennaráðum. Formlegar boðleiðir þurfa að vera til staðar milli ungmennaráðs og kjörinna fulltrúa og embættismanna sveitarfélagsins. Sömuleiðis þarf samráð við ungmennaráð að vera í föstum skorðum og með reglubundnum hætti.

Barnvæn nálgun

Til þess að sveitarfélag sé barnvænt er ekki nóg að stefnur, reglur og ákvarðanir taki mið af Barnasáttmálanum. Tryggja þarf að umhverfi, viðhorf, stjórnsýsla og þjónusta sé barnvæn og taki mið af þörfum og hagsmunum barna.
 
Mikilvægt er að auðvelda aðgengi barna að ólíkum sviðum og stofnunum sveitarfélagsins. Sérstaklega er brýnt að þjónusta sem ætluð er börnum sé barnvæn, t.d. barnavernd og félagsþjónustan. Starfsumhverfi sveitarfélagsins ætti að mótast af þörfum barna, þannig að auðvelt sé fyrir börn á öllum aldri að óska eftir aðstoð við hæfi. Þá skiptir miklu máli að börn geti sjálf leitað til starfsfólks sveitarfélagsins og fengið leiðbeiningar og ráðgjöf, án aðkomu foreldra. Enn fremur þarf að tryggja að þau svið, stofnanir sem hafa ekki augljósa tengingu við börn tileinki sér barnvæna nálgun. Umhverfis- og skipulagssvið og fjármálasvið sveitarfélags ættu ekki síður að vera þátttakendur í að tileinka sér barnvæna nálgun en skóla- og frístundasvið eða barnavernd, enda er verkefnið samstarfsverkefni allra sviða sveitarfélagsins.
 
Þá er mikilvægt að allir þeir ólíku aðilar og stofnanir sem koma barninu við, vinni saman og móti heildstæða sýn á barnið. Það er svo mikilvægt að allt fullorðið fólk í lífi barnsins vinni saman. Þegar við tölum um barnvæna nálgun erum við að tala um allt frá aðstæðum sem hvert og eitt okkar býður barni í persónulegum samskiptum og upp í það hvernig sveitarfélagið nálgast málefni barna í heild. Sem dæmi má nefna allt frá því hvernig aðstæður við sköpum þegar við fundum með börnum og yfir í hvernig ólík svið og stofnanir innan sveitarfélagsins vinna saman að öruggu umhverfi barna.

Barnavernd

Foreldrar bera meginábyrgð á velferð barna sinna og fara með forsjá þeirra. Þegar brotið er á réttindum barna eru sem betur fer flestir foreldrar færir um að aðstoða börn sín og koma fram fyrir þeirra hönd. Það er því miður ekki alltaf raunin. Í barnvænu sveitarfélagi þarf að tryggja að börn geti sjálf komið ábendingum og tilkynningum á framfæri ef réttindi þeirra eru ekki virt, óháð vitneskju eða samþykki foreldra. Þær leiðir sem standa til boða í sveitarfélaginu þurfa því að vera einfaldar og barnvænar, þannig að börn geti nýtt sér þær.
 
Til þess að stuðla að velferð allra barna í sveitarfélaginu þarf einnig að vinna markvisst að forvörnum og fræðslu. Til dæmis þarf starfsfólk sem vinnur með börnum að fá viðeigandi þjálfun til að greina líðan barna. Þannig er hægt að bregðast rétt við og tilkynna til barnaverndar ef ástæða er til að ætla að barn hafi orðið fyrir ofbeldi, vanrækslu eða annars konar illri meðferð. Liggja þarf fyrir skýrt verklag hvernig er unnið með slík mál.

Félags- og menningarstarf barna

Mikilvægt er að barnvænt sveitarfélag styðji við félagslegt umhverfi og menningu barna með fjölbreyttum hætti. Sum sveitarfélög gera það með því að veita styrki til íþrótta- og tómstundaiðkunnar eða efla börn í að standa fyrir eigin menningarviðburðum. Barnvænt sveitarfélag ætti að leita eftir viðhorfum og skoðunum barna á því hvernig þau vilja verja frítíma sínum og stuðla að fjölbreyttu frístundastarfi. Sömuleiðis þarf að kanna aðgengi barna að menningarstofnunum innan sveitarfélagsins. Barnvænt sveitarfélag ætti einnig að styðja við menningarviðburði á vegum barna og ungmenna með því að bjóða uppá verkefnastyrki og/eða aðstöðu.

Umhverfi og skipulag

Það er fátítt að börn og ungmenni komi að skipulagsmálum á vettvangi sveitarfélaga. Þó eru börn og ungmenni ef til vill einhverjir virkustu notendur umhverfis og samgangna. Þegar kemur að því að skipuleggja útivistarsvæði, skólalóðir, samgöngur á milli hverfa o.s.frv. búa börn yfir mikilvægum upplýsingum og þekkingu sem getur nýst starfsmönnum sveitarfélagsins. Eins er mikilvægt að huga að því að ákveðin svæði geta skipt börn máli, þó það sé ef til vill ekki augljóst hinum fullorðnu. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á því að starfsfólk sveitarfélags tileinki sér barnvænt sjónarhorn og nálgun í störfum sínum. Það ætti að leggja sig fram við að nálgast þarfir barna og bjóða þeim að taka þátt í skipulagsferli. Á þetta sérstaklega við um þegar unnið er að skipulagi skólalóða og skólabygginga eða útivistarsvæða ætluðum börnum og ungmennum.

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur