Innleiðingarferlið
Innleiðing Barnvænna sveitarfélaga felur í sér átta skref sem miða að því að virða og uppfylla réttindi barna.
1. Staðfesting
Eftir að sveitarfélag hefur kynnt sér verkefnið og óskað eftir þátttöku tekur sveitarstjórn formlega ákvörðun um innleiðingu verkefnisins. Mikilvægt er að ákvörðunin sé þverpólitísk en sú krafa er gerð til þess að koma í veg fyrir að verkefnið verði pólitískt bitbein sem sveiflast til og frá með tilheyrandi áhrifum á börn. Áður en formleg ákvörðun er tekin þarf að kynna verkefnið sérstaklega fyrir ungmennaráði. Ungmennaráð sveitarfélaganna spila gríðarlega stórt hlutverk í innleiðingu verkefnisins og því er mjög mikilvægt að ungmennaráðið sé haft með í ráðum frá upphafi og að þau ungmenni sem þar sitji séu tilbúin að hefja þessa vegferð.
Sveitarfélagið undirritar svo samstarfssamning við UNICEF og félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu.
Skipaður er umsjónarmaður verkefnisins sem heldur utan um verkefnið og skipuleggur hvernig innleiðingin gengur fyrir sig. Það er gríðarlega mikilvægt að umsjónarmaður sé í aðstöðu til að beita sér innan allra sviða sveitarfélagsins og tryggja þarf að hann hafi nægan tíma til að sinna verkefninu. Hafa þarf í huga að vinnuálag umsjónarmanns er breytilegt eftir því á hvaða stigi innleiðingin er. Sem dæmi má nefna að mikið álag er á umsjónarmanni á meðan á stöðumati stendur.
Þá þarf að stofna stýrihóp sem sér um verkefnið í samvinnu við umsjónarmann verkefnisins. Umsjónarmaður er líka starfsmaður stýrihóps en hópurinn samanstendur af fulltrúum meirihluta og minnihluta, fulltrúum allra sviða sveitarfélagsins og að minnsta kosti fjórum fulltrúum úr ungmennaráði. Hlutverk stýrihóps er að;
- samræma og stýra innleiðingu Barnasáttmálans innan sveitarfélagsins,
- hafa umsjón með stöðumati á réttindum og velferð barna innan sveitarfélagsins,
- meta þörf fyrir fræðslu um réttindi barna innan sveitarfélagsins,
- gera aðgerðaráætlun sem byggir á stöðumatinu,
- fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar,
- miðla upplýsingum um verkefnið og kynna aðgerðaáætlun á barnvænan hátt,
- hafa samskipti við UNICEF og félagsmálaráðuneytið, ásamt skýrslugjöf.
Huga þarf sérstaklega vel að þátttöku barna í stýrihópnum. Það er mikilvægt að börn eigi þar sæti og við leggjum til að þau séu a.m.k. fjögur til að tryggja þátttöku barna á öllum fundum stýrihópsins. Valdaójafnvægi milli barna og fullorðinna á það til að myndast á fundum sem þessum þar sem fá börn funda með mörgum fullorðnum. Þess vegna er gott að börnin hafi stuðning hvort af öðru. Það er þó ekki nóg að bjóða bara börnum að taka þátt heldur þarf að tryggja að fundatími henti og aðstæður séu barnvænar. Ef ætlast er til þess að börnin komi undirbúin á fundi þarf að tryggja þeim aðgang að upplýsingum sem hentar aldri þeirra og þroska, og tryggja að þau fái gögnin með nægum fyrirvara. Þegar á fundinn er komið er mikilvægt að passa að orðræða og hugtakanotkun taki mið af aldri og þroska þeirra barna sem sitja fundinn. Það er mikilvægt að átta sig á því að börn eru breiður hópur, þau eru á mismunandi aldri, með mismunandi þarfir, áhugamál, reynslu og þekkingu. Því er ekki hægt að ætlast til þess að örfá börn geti verið talsmenn allra barna. Því er nauðsynlegt að bjóða fjölbreyttar þátttökuleiðir og eiga samráð við breiðan hóp barna.
Þegar samningur hefur verið undirritaður, umsjónarmaður skipaður og stýrihópur stofnaður er hægt að taka næsta skref í innleiðingunni sem er að meta stöðu barna innan sveitarfélagsins með tilliti til réttinda þeirra.
Tékklisti:
- Kynning á verkefninu innan sveitarfélagsins.
- Verkefnið kynnt sérstaklega fyrir ungmennaráði og það haft með í ráðum við ákvarðanatökuna um þátttöku í verkefninu.
- Sveitarstjórn tekur þverpólitíska ákvörðun um þátttöku í verkefninu.
- Sveitarfélagið undirritar samning við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið
- Tilnefning umsjónarmanns.
- Stofnun stýrihóps.
2. Stöðumat
Annað skref innleiðingarinnar er stöðumat. Áður en ráðist er í breytingar er mikilvægt að átta sig á stöðu barna innan sveitarfélagsins. Til þess byrjar stýrihópurinn á því að svara leiðbeinandi spurningalistum með það að markmiði að skilja betur hvar sveitarfélagið stendur varðandi réttindi barna. Það er mikilvægt að ungmennaráðið taki þátt í stöðmatinu því börn búa yfir dýrmætum upplýsingum. Eins er ætlast til þess að stýrihópurinn leiti sér upplýsinga og ráðgjafar utan hópsins, sé þess þörf. Leiðbeinandi spurningalistar eru fimm talsins og byggja á grunnþáttum Barnvænna sveitarfélaga.
Þegar stýrihópur hefur farið yfir og svarað spurningalistunum eru spurningakannanir Barnvænna sveitarfélaga lagðar fyrir bæði börn og starfsmenn sveitarfélagsins. Spurningakönnunin sem lögð er fyrir starfsmenn sveitarfélagsins snýr að því að kanna viðhorf og þekkingu þeirra á réttindum barna, en þeir starfsmenn sem starfa með börnum svara einnig spurningum um tilkynningarskyldu til barnaverndar. Börnin svara spurningakönnun um þekkingu á réttindum barna og tækifæri þeirra til að hafa áhrif á starfsemi sveitarfélagsins. Spurningakönnununum fylgja kynningarbréf til fullorðinna og barna þar sem verkefnið Barnvæn sveitarfélög er kynnt ásamt tilgangi kannananna. Niðurstöður spurningakannananna gefa góða sýn yfir stöðu þekkingar á réttindum barna í sveitarfélaginu og í næsta stöðumati eru kannanirnar endurteknar og fæst þá gagnlegur samanburður á milli tímabila.
Þegar stýrihópur hefur svarað leiðbeinandi spurningalistum og niðurstöður spurningakannana liggja fyrir, hefst sveitarfélagið handa við skipulagningu barnaþings. Æskilegt er að ungmennaráð taki virkan þátt í skipulagningu og undirbúningi þingsins. Það eru margar leiðir til að halda barnaþing, en þá fá börn í sveitarfélaginu tækifæri til að tjá skoðanir sínar og viðhorf til sveitarfélagsins og þeirrar þjónustu sem það veitir. Mikilvægt er að tryggja að sem breiðastur hópur barna hafi tækifæri til þátttöku í barnaþinginu. Margar leiðir eru til þess að halda barnaþing. Í handbók ungmennaráða er að finna góðar hugmyndir til þess.
Þegar stýrihópur hefur unnið spurningalistana og niðurstöður spurningakannana og barnaþings eru komnar í hús þarf stýrihópurinn að átta sig á því hvort einhverjir hópar barna hafi ekki fengið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ræða þarf sérstaklega við börn sem tilheyra viðkvæmum hópum og því eru settir á fót sérfræðihópar barna. Sem dæmi um sérfræðihópa eru börn með fatlanir, börn með annað móðurmál en íslensku og börn sem eru við það að flosna upp úr námi eða hafa nú þegar gert það. Mikilvægt er að árétta að þetta er ekki tæmandi listi og sveitarfélagið þarf að kanna hvaða hópa þarf að ræða sérstaklega við. Einnig er hægt að stofna verkefnahópa barna til þess að skoða einstaka málefni betur. Sem dæmi væri hægt að stofna slíkan hóp um samgöngumál, skipulagsmál, íþróttamál eða annað.
Tékklisti:
- Stýrihópur svarar leiðbeinandi spurningalistum
- Spurningakannanir eru lagðir fyrir starfsfólk sveitarfélagsins
- Spurningakannanir eru lagðir fyrir börn í sveitarfélaginu
- Ungmennaþing er haldið í þéttu samráði við ungmennaráð.
- Viðtöl eru tekin við sérfræðihópa barna sem valdir eru út frá svörum við leiðbeinandi spurningalistum og niðurstöðum spurningakannana og ungmennaþings
3. Fræðsla
Þekking á réttindum barna er einn af grunnþáttum verkefnisins og forsenda allra skrefa innleiðingarinnar. Í 42.gr. Barnasáttmálans segir að allir, bæði fullorðnir og börn, verði að þekkja réttindi barna og því er það skylda sveitarfélaga að hlúa að réttindafræðslu. Mikilvægt er að fræðslan sé markviss og regluleg. Til að sáttmálinn öðlist merkingu og nýtist sem hagnýtt verkfæri innan sveitarfélagsins þarf starfsfólk að fá fræðslu um Barnasáttmálann þannig að það geti sett hann í samhengi við verkefni sveitarfélagsins og daglegt líf þeirra barna sem þar búa. Þá þarf einnig að tryggja að starfsfólk sveitarfélagsins fái góða kynningu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög þannig að það geri sér grein fyrir hlutverki sínu og skilji tilgang þess og markmið.
Þá er mikilvægt er að börnum sé tryggð markviss réttindafræðsla í takt við niðurstöður spurningakönnunar. Rannsóknir sýna að börn sem hafa fengið slíka fræðslu bera fremur virðingu fyrir hvert öðru og öðlast betri félagslega færni. Réttindafræðsla getur ýtt undir að börn berjist fyrir réttlæti og jafnrétti og að þau þori frekar að grípa til jákvæðra aðgerða til að vernda og styðja réttindi annarra.
Fræðslan er hér sett fram sem næsta skref eftir að stöðumati lýkur. Það er vegna þess að leggja þarf undirstöðurnar áður en haldið er lengra með verkefnið með því að tryggja starfsfólki nauðsynlega fræðslu. Það er samt sem áður mikilvægt að nefna að það starfsfólk sem kemur að því að vinna stöðumatið þarf að hafa fengið fræðslu áður en það vinnur matið. Fræðslunni lýkur þó ekki hér heldur þarf hún að vera áframhaldandi og alltumlykjandi. Nýtt starfsfólk bætist í hópinn og nýjar íbúar flytjast til bæjarins og því þarf að viðhalda fræðslunni. Markmiðið skal vera að allir íbúar sveitarfélagsins, ungir sem aldnir, verði meðvitaðir um réttindi barna.
Eftir að unnið hefur verið úr niðurstöðum stöðumats og fræðslan er komin af stað hefst stýrihópurinn svo handa við að setja saman aðgerðaáætlun en algengt er að réttindafræðsla sé hluti af þeim aðgerðum sem þar koma fram.
Tékklisti:
- Starfsfólk sveitarfélagsins fær fræðslu um réttindi barna.
- Börn fá markvissa og reglulega fræðslu um réttindi sín.
4. Aðgerðaáætlun
Nú er komið að því að ákveða hvaða breytingar ráðist verður í innan sveitarfélagsins til þess að framfylgja réttindum barna. Aðgerðaáætlun sýnir með hvaða hætti sveitarfélagið hyggst innleiða Barnasáttmálann. Þegar ákveðið er hvaða aðgerðir skulu framkvæmdar er gott að hafa grunnþættina fimm til hliðsjónar en einhverjar aðgerðir þurfa að tengjast hverjum þeirra með beinum hætti. Þá þarf að líta til grunnþáttanna þegar ákveðið er hvort og hvernig aðgerð skuli framkvæmd. T.d. þarf ávallt að huga að því hvaða áhrif aðgerð hefur á börn, hvort hún leiði til einhverskonar mismununar og hvort að börn hafi fengið tækifæri til að tjá skoðun sína um tiltekna aðgerð.
Stýrihópurinn hefur umsjón með gerð aðgerðaáætlunar og skipuleggur aðgerðir út frá niðurstöðum stöðumats í samráði við ungmennaráð. UNICEF gerir ekki kröfu um tiltekinn fjölda aðgerða, enda fer umfang áætlunarinnar eftir stærð sveitarfélagsins. Sú krafa er samt gerð að í aðgerðaáætlun séu bæði að finna aðgerðir sem stýrihópurinn sér þörf á að framkvæma vegna þeirra upplýsinga sem aflað var í tengslum við stöðumatið og aðgerðir sem börn sveitarfélagsins hafa sjálf kallað eftir. Það er mikilvægt að annars vegar séu aðgerðir sem eru flóknari og taka lengri tíma og hins vegar einfaldari aðgerðir sem tekur styttri tíma að vinna. Það skiptir máli að börn finni strax fyrir breytingum sem verða þegar sveitarfélagið gerist barnvænt. Niðurstöður ungmennaþings gefa góða vísbendingu um aðgerðir sem líklegt er að börn styðji og taki eftir.
Mikilvægt er að setja skýran tímaramma fyrir hverja aðgerð og tiltaka nákvæmlega hvað á að gera. Þá skal tilgreindur ábyrgðaraðili fyrir hverja aðgerð sem hefur það hlutverk að tryggja að aðgerðin verði framkvæmd og henni lokið. Stundum eru stofnaðir vinnuhópar utan um einstaka aðgerðir til þess að styðja við framkvæmd þeirra. Til þess að fá viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag þarf sveitarfélagið að hafa lokið við framkvæmd allra aðgerða sem settar eru fram í aðgerðaáætlun en gert er ráð fyrir að framkvæmdin taki u.þ.b. eitt til tvö ár. Sumar aðgerðir munu taka lengri tíma og er ekki hægt að ljúka áður en til viðurkenningar kemur. Í þeim tilvikum er mikilvægt setja fram vel skilgreind, raunhæf og tímasett markmið fyrir þá verkþætti aðgerðarinnar sem ljúka skal áður en sveitarfélagið sækist eftir viðurkenningu. Aðgerðin er þá einnig hluti af næstu aðgerðaáætlun með nýjum verkþáttum og markmiðum.
Stýrihópurinn sér til þess að upplýsa íbúa, þar á meðal börn, um innihald aðgerðaáætlunarinnar. Mikilvægt er að tryggja að allar upplýsingar um framgang verkefnisins séu aðgengilegar fjölbreyttum hópum barna á barnvænu máli. Mikilvægt er að aðgerðaáætlun sé vel kynnt ungmennaráði og það haft með í ráðum við gerð hennar.
UNICEF aðstoðar við þróun aðgerðaráætlunar og tryggir að hún mæti kröfum verkefnisins. Á þessu stigi á sér stað samtal milli umsjónarmanns og sérfræðinga UNICEF um innihald og umfang áætlunarinnar áður en hún er færð til samþykktar sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórnar er mjög mikilvægt því þannig er fjármögnun aðgerða og framgangur tryggður. Þegar sveitastjórn hefur samþykkt áætlunina er hafist handa við framkvæmdina.
Tékklisti:
- Stýrihópurinn mótar aðgerðaáætlun verkefnisins með hliðsjón af niðurstöðum stöðumats.
- Aðgerð er vel skilgreind og gefinn tímarammi.
- Ábyrgðaraðili er tilnefndur fyrir hverja aðgerð fyrir sig og mögulega vinnuhópur. Ábyrgðaraðili þarf að vera upplýstur um sitt hlutverk.
- Aðgerðaáætlun er send til UNICEF til samþykkis
- Þegar aðgerðaáætlun hefur verið samþykkt af UNICEF er hún lögð fyrir sveitarstjórn sem samþykkir hana formlega.
- Aðgerðaáætlun kynnt íbúum, þá sérstaklega börnum.
- Til þess að sveitarfélag fái viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag þarf öllum aðgerðum í aðgerðaáætlun að vera lokið.
5. Framkvæmd
Tékklisti:
- Umsjónarmaður og stýrihópur halda utan um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.
- Stýrihópurinn sér jafnframt til þess að sveitarstjórn, starfsfólk og íbúar sveitarfélagsins séu upplýst um framgang verkefnisins.
- Tryggt er að börn og ungmenni hafi aðgang að upplýsingum um innleiðinguna og geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
- Framkvæma þarf allar aðgerðir aðgerðaáætlunar áður en viðurkenning er veitt.
6. Skýrsla
Þegar sveitarfélagið hefur uppfyllt allar aðgerðir aðgerðaáætlunar skilar stýrihópurinn lokaskýrslu til UNICEF. Í skýrslunni er lagt mat á hvernig hafi gengið að uppfylla aðgerðaáætlunina og hvort sveitarfélagið hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til Barnvænna sveitarfélaga. Í skýrslunni gerir stýrihópurinn grein fyrir þeim þáttum sem vel gengu ásamt þeim sem hefðu mátt betur fara. UNICEF veitir skriflega endurgjöf varðandi skýrsluna og getur óskað eftir annað hvort skriflegum svörum eða breytingu á skýrslunni.
Ungmennaráðið skilar einnig eigin skýrslu til UNICEF. Sú skýrsla má vera á hverju því formi sem hentar þeim best, í rituðu máli, myndband, hljóðupptaka, myndir, fundur með UNICEF eða annað sem hentar. Markmiðið með skýrslu ungmennaráðs er að tryggja ungmennunum möguleika til þess að meta tækifæri sín til þátttöku í verkefninu. Eins leggja börnin mat á áhrif verkefnisins á börn.
Tékklisti:
- Þegar aðgerðaáætlun sveitarfélagsins telst uppfyllt skilar sveitarfélagið skýrslu til UNICEF um framgang verkefnisins
- Ungmennaráð sveitarfélagsins skilar jafnframt eigin skýrslu til UNICEF og gerir grein fyrir hvernig þau hafi verið þátttakendur í innleiðingu verkefnisins.
- UNICEF skilar skriflegum athugasemdum.
- Sveitarfélag gerir breytingar/viðbætur ef við á og skilar UNICEF lokaskýrslu.
7. Mat og viðurkenning
Þegar lokaskýrslu stýrihóps og ungmennaráðs hefur verið skilað hefst úttekt á verkefninu með UNICEF. Úttektin fer fram með þeim hætti að UNICEF fundar með aðilum innan sveitarfélagsins. UNICEF fundar alltaf með umsjónarmanni, stýrihópi, ungmennaráði og sveitarstjóra, ásamt aðilum sem tengjast aðgerðum sem framkvæmdar eru hverju sinni. Úttektin er undirbúin í samráði við umsjónarmann.
Þegar innleiðingarferlið er metið er m.a. horft til niðurstöðu lokaskýrslna, samsetningu og verkefna stýrihóps, þátttöku barna og ungmenna í skipulagningu og framkvæmd, hversu vel var staðið að stöðumati, hversu vel aðgerðaáætlun var unnin og framkvæmd og þá er rýnt í niðurstöður úr úttektarviðtölum.
Ef aðgerðaráætlun sveitarfélagsins telst uppfyllt og innleiðingin er talin hafa verið réttindum barna til framdráttar er sveitarfélaginu veitt viðurkenning sem Barnvænt sveitarfélag. Mikilvægt er að taka það fram hér, að það er ekki um vottun að ræða heldur viðurkenningu á því að sveitarfélagið hafi unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með hagsmuni barna að leiðarljósi. Þegar viðurkenningin er í höfn fær sveitarfélagið til afnota merki Barnvænna sveitarfélaga. Viðurkenningin gildir í þrjú ár en að þeim loknum fer sveitarfélagið í endurmatsferli sem byggir á nýju stöðumati og aðgerðaáætlun.
Í kjölfar úttektar og viðurkenningar tekur UNICEF saman greinagerð um niðurstöður úttektar og sendir sveitarfélaginu. Þar eru tekin saman góð ráð og ábendingar sem geta nýst vel í áframhaldandi vinnu og litið er til þeirra við endurmat.
Tékklisti:
- UNICEF gerir úttekt á vinnu sveitarfélagsins þar sem tekin eru viðtöl við aðila sem tengjast verkefninu
- Allar aðgerðir þurfa að hafa verið framkvæmdar
- Viðurkenning veitt
- Sveitarfélag má nota vörumerki Barnvænna sveitarfélaga
- UNICEF skilar greinargerð
8. Ný markmið og endurmat
Viðurkenning Barnvænna sveitarfélaga gildir í þrjú ár. Ef sveitarfélag vill viðhalda viðurkenningunni þarf að halda innleiðingunni áfram, setja ný markmið og gera nýja aðgerðaáætlun. Það er nefnilega þannig að þó svo að sveitarfélagið hljóti viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag, þýðir það ekki að innleiðingarvinnunni sé lokið. Innleiðing Barnasáttmálans er eilífðarverkefni því þrátt fyrir að ákvæði sáttmálans haldist þau sömu, breytast aðstæður og umhverfi barna og því þarf stöðugt að vera að endurskoða og tryggja að unnið sé í anda sáttmálans. Þess vegna er hafist handa við að meta stöðu barna innan sveitarfélagsins að nýju, fljótlega eftir að viðurkenning hefur verið veitt. Þá er staða barna metin á ný og þannig má mæla þann árangur sem unnist hefur frá því hafist var handa í fyrstu. Í kjölfarið er útbúin ný aðgerðaáætlun og nýjar aðgerðir framkvæmdar. Þannig verður sveitarfélagið sífellt barnvænna.
Við endurmat er sérstaklega horft til þess hvort tekið hafi verið tillit til ábendinga UNICEF frá síðustu úttekt.
Tékklisti:
- Viðurkenning barnvænna sveitarfélaga gildir í þrjú ár. Ef sveitarfélag vill viðhalda viðurkenningunni þarf að halda innleiðingunni áfram, setja ný markmið og gera nýja aðgerðaáætlun.