Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðana
útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims
Börn eignast eigin réttindi
Mannréttindi eiga að tryggja öllum einstaklingum rétt til þess að njóta mannlegrar reisnar, líkt og kemur m.a. fram í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Börn eiga að sjálfsögðu að njóta sömu mannréttinda og fullorðnir. Vegna þroska- og reynsluleysis njóta börn þó ekki allra stjórnmálalegra réttinda, svo sem kosningaréttar.
Þar sem börn eru sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur er þeim tryggð aukin vernd og stuðningur í ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum. Sérstaða barna hlaut fyrst alþjóðlega viðurkenningu með hinni svokölluðu Genfaryfirlýsingu Þjóðabandalagsins frá árinu 1924, sem byggð var á stefnuyfirlýsingu Save the Children. Í henni var að finna ýmsar grundvallarreglur um vernd og umönnun barna. Í kjölfar þeirra grófu mannréttindabrota sem börn urðu fyrir í seinni heimstyrjöldinni jókst umræðan um nauðsyn þess að tryggja börnum aukna vernd. Sérstök yfirlýsing um réttindi barnsins var samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1959 og byggðist hún um margt á yfirlýsingu Þjóðabandalagsins. Hvorki Genfaryfirlýsingin né yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins voru formlega bindandi að þjóðarétti.
Flest ríki voru sammála um nauðsyn þess að þróa réttindi barna á alþjóðlegum vettvangi enn frekar og veita börnum víðtækari vernd. Af þeirri ástæðu var hafist handa við að undirbúa sérstakan þjóðréttarsamning um réttindi barna árið 1979, en það ár hafði formlega verið útnefnt sem ár barnsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast nefndur í daglegu tali, var lagður fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, fullbúinn til undirritunar og fullgildingar, þann 20. nóvember árið 1989.
Barnasáttmálinn verður til
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna, þar sem sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Sáttmálinn viðurkennir að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann felur jafnframt í sér að börn eigi sjálfstæðan rétt til þess að hafa áhrif á eigið líf og taka virkan þátt í samfélaginu.
Barnasáttmálinn tryggir börnum mjög víðtæk réttindi, en stundum er réttindum hans skipt í þrjá flokka – vernd, umönnun og þátttöku. Í fyrsta lagi kveður sáttmálinn á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, félaga, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Í öðru lagi leggur hann skyldur á aðildarríkin um að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Loks á Barnasáttmálinn að tryggja börnum rétt til þess að vera þátttakendur í eigin lífi sem og í samfélaginu í heild.
Greinar Barnasáttmálans
Grundvallarforsendur
2. grein Jafnræði – bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.
3. grein Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfyllireglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.
6. grein Réttur til lífs og þroska
Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.
12. grein Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi, hjá sýslumanni eða öðrum stofnunum.
Valfrjálsar bókanir við Barnasáttmálann
Algengt er að mannréttindasáttmálum sé fylgt eftir með valfrjálsum bókunum sem annað hvort eru hugsaðar sem viðbót við sáttmálann eða til að útfæra nánar einstök ákvæði hans. Valfrjálsar bókanir eru sáttmálar í sjálfu sér og eru opnar fyrir undirskrift, samþykki og fullgildingu frá löndum sem eru aðilar að umræddum sáttmála. Ríkin eru þó ekki skuldbundin til að fullgilda bókanirnar, en þau ríki sem fullgilda þær eru lagalega skuldbundin til að fara eftir þeim.
FYRSTA OG ÖNNUR BÓKUNIN
Þann 25. maí árið 2000, samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvær valfrjálsar bókanir við Barnasáttmálann. Önnur fjallar um sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi en hin um þátttöku barna í vopnuðum átökum. Árið 2002 voru þessar tvær valfrjálsu bókanir fullgiltar á Íslandi og við lögfestingu Barnasáttmálans árið 2013 voru þær einnig færðar í lög.
ÞRIÐJA BÓKUNIN